LavaConcept Iceland ehf
Um okkur
Lavaconcept Iceland ehf sem er staðsett í Mýrdalshreppi var stofnað árið 2013. Fyrirtækið sérhæfir sig í vinnslu og útflutningi á sandblásturssandi til Þýskalands og sölu til íslenskra fyrirtækja.
Framkvæmdastjóri Lavaconcept Iceland er Jóhann Vignir Hróbjartsson.
Sagan
Veturinn 2008 voru heimamenn að ræða saman um atvinnuástandið í Mýrdalshreppi sem var þeim eins og svo mörgum hugleikið. Hugmyndir og möguleg atvinnutækifæri voru rædd og var ákveðið að skoða eitthvað annað en ferðaþjónustu. Það vantaði sárlega fjölbreytni og öll eggin voru í sömu körfunni sem er aldrei gott í svona litlu en ört vaxandi sveitafélagi.
Eftir góðan hugarflugsfund var niðurstaðan sú að nóg væri af sandi í Vík og var ákveðið að heyra í aðilum sem voru að bjóða uppá sandblástur og stofna saman fyrirtækið Mýrdalssand ehf. Stuttu eftir það var gert samkomulag við fyrirtæki um hefja strax framleiðslu á sandblásturssandi en þeir útveguðu tækjabúnað til að aðstoða við að koma þessu af stað innan fárra daga.
Síðan tók við mikil vinna við að byggja upp og setja þessa vinnslu af stað en strax í byrjun varð algjört hrun á sölu á sandblásturssandi vegna bankakreppunnar í árslok 2008. Á þeim tíma var þetta meira og minna áhugamál okkar heimamanna sem vildu alls ekki gefast upp og höfðu mikla trú á því að markaðurinn myndi taka aftur við sér.
Í framleiðslunni á sandblásturssandi sem var ca. 0,2 - 3 mm féll til hliðar talsvert magn af steinum sem okkur fannst upplagt að finna not fyrir og var þá haft samband við sérfræðinga sem voru að selja og leggja steinteppi og Terrazzo og var gert samkomulag við þá um framleiðslu og sölu á steinteppi.
Fljótlega komu upp hugmyndir um að athuga hvort hægt væri að selja efni á erlendum markaði og varð okkur ljóst að til að stækka og standa undir kostnaði væri nauðsynlegt að ná samtalið við erlenda aðilda sem höfðu áhuga á því að kaupa steinteppi og mögulega sandblásturssand.
Til að gera langa og erfiða sögu styttri þá var það árið 2012 sem við byrjuðum að kynna starfsemina og komumst við í samband við erlenda aðila sem síðan pöntuðu prufur til að prófa og gera samanburð á þeim efnum sem þeir voru að kaupa frá öðrum birgjum.
Eftir mikið rannsóknaferli árið 2013 hófum við samtal við fyrirtæki í Þýskalandi um sölu á sandblásturssandi og var upp úr því ákveðið að stofna fyrirtækið LavaConcept Iceland ehf til að halda utan um vinnslu á sandblásturssandi til útflutnings. Þegar að búið var að prófa allt það sem var nauðsynlegt til að nota efnið í Evrópu og fá jákvæðar niðurstöður úr öllum rannsóknum var loksins árið 2019 gerður samningur um sölu á efni.